Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 573. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1273  —  573. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (flutningur leyfa og undanþágna til Lyfjastofnunar og gjaldtaka).

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur og Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá velferðarráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Lyfjastofnun, ríkislögreglustjóra og tollstjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu er lagt til að veiting leyfa og undanþágna til inn- og útflutnings á ávana- og fíkniefnum verði flutt frá velferðarráðuneyti til Lyfjastofnunar. Einnig er í frumvarpinu lagt til að greiða skuli gjald fyrir slík leyfi og undanþágur. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um efnislegar breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni, heldur eingöngu verið að flytja framkvæmd verkefnisins frá velferðarráðuneytinu til Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun hefur sértækt eftirlit með ávana- og fíknilyfjum og liggur því beinast við að veiting leyfa og undanþágna eigi betur heima á verksviði Lyfjastofnunar en ráðuneytisins.
    Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar eru undanþágur veittar lyfsölum, lyfjaframleiðendum og heildsölum. Einnig nota lögregla og rannsóknastofur örlítið af ávana- og fíkniefnum til samanburðar við ólöglega innflutt ávana- og fíkniefni og til rannsóknar. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er efnunum almennt fargað að viðstöddum starfsmanni Lyfjastofnunar og lögreglu en nefndin telur að skoða þurfi sérstaklega förgun efna sem rannsóknastofur nota í sínu starfi.
    Gjaldtökuheimildin í frumvarpinu gerir ráð fyrir að Lyfjastofnun fái heimild til að innheimta gjald fyrir umrædd leyfi og undanþágur. Hingað til hefur sá háttur ekki verið hafður á, en telja verður eðlilegt að greitt sé fyrir slíkt leyfi í ljósi þeirrar vinnu sem leyfisveitingar og undanþágur hafa í för með sér fyrir stjórnvöld. Eðli málsins samkvæmt ættu umsækjendur að bera þann kostnað og er það í samræmi við erlenda framkvæmd. Nefndin leggur hins vegar mikla áherslu á að gjaldið taki eingöngu mið af raunkostnaði sem hlýst af vinnu við veitingu leyfa og undanþágna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    4. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

         Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. apríl 2011.



Þuríður Backman,


form., frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Siv Friðleifsdóttir.



Ólafur Þór Gunnarsson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.